Sauðárkrókskirkja var vígð 9. desember árið 1892. Sóknin varð til við sameiningu Sjávarborgar- og Fagranessókna, og nær hún yfir Reykjaströnd, Gönguskörð, Sauðárkrók og Borgarsveit.
Kirkjuhúsið hefur stækkað með söfnuðinum, árin 1957 og 1958 var kirkjan stækkuð til austurs beggja vegna við turninn. Turninn endurbyggður og steyptur kjallari undir nýbygginguna.
Fyrir hundrað ára afmæli kirkjunnar var hún svo endurbyggð að miklu leyti og lengd um tæpa fjóra metra til vesturs. KIrkjan var tekin í notkun á ný 9. desember 1990.
Altaristafla kirkjunnar er frá 1895 og er eftir danska málarann Anker Lund. Á altaristöflunni gefur að líta túlkun listamannsins á göngunni til Emmaus.
Ljósakrónurnar í kirkjuskipinu eru upprunalegu olíulamparnir sem fengu nýtt líf sem rafljós 1923.
Steindir gluggar eru í kirkjunni, þeir eru verk listafólksins Guðrúnar og Jes Urup. Gluggarnir í forkirkjunni sýna Lífsins vatn og Lífsins tré. Í kirkjuskipinu gefur að líta tímabil og hátíðir kirkjuársins og sakramentin eru táknuð í kór kirkjunnar.
Skírnarfontur og predikunarstóll eru frá 1955.
Höklar kirkjunnar eru sjö talsins, tveir rauðir, tveir hvítir, fjólublár, grænn og gylltur hátíðarhökull. Auk þessa prýða kirkjunna og safnaðarheimilið margir fagrir munir sem velunnarar hafa gefið söfnuðinum.
Safnaðarheimili hefur verið í næsta húsi við kirkjuna frá 1965. Húsið var byggð sem sjúkrahús árið 1901, og starfrækt sem slíkt til 1960.
Kirkjugarðurinn er á Nöfunum fyrir ofan bæinn þaðan er fagurt útsýni yfir fjörðinn og eyjarnar. Elsti hluti garðsins er frá 1893.