Kæru sóknarbörn og vinir.
Ekki hefur farið fram hjá nokkrum manni að nú er samkomubann á Íslandi. Kirkjulegar athafnir eru meðal þess sem bannið nær til. Útfarir mega því aðeins fara fram með ákveðnum skilyrðum. Annars vegar felast þau í því að fjöldi viðstaddra er takmarkaður en hins vegar verða að vera tveir metrar hið minnsta á milli kirkjugesta.
Vegna þessa banns verður fyrirkomulag útfara í Sauðárkrókskirkju með eftirfarandi hætti á meðan bannið er í gildi:
1) Útfarir verða ekki opnar almenningi og fylgjum við fyrirmælum um fjölda kirkjugesta sem ekki verða fleiri en 20 við hverja athöfn, með fyrirvara um breytingar.
2) Æskilegt er að allar kistulagningar fari fram í kirkjunni.
3) Fjölskyldur af sama heimili mega sitja saman.
4) Mögulegt er að streyma frá útför gegnum alnetið og undirbúa það í samráði við prest.

Þetta eru undarlegir tímar sem við nú lifum.
Þegar ástvinur deyr og sorgin knýr dyra, finnst flestum hjálplegt að hvíla í þeim hefðum og athöfnum sem við höfum og tengd eru kveðjuathöfnum eins og kistulagningu og útför.
Séra Guðbjörg Arnardóttir prestur á Selfossi kemst vel að orði í grein sinni Að kveðja á tímum Covid 19, en þar skrifar hún m.a. : ,,Athafnir og hefðir tengdar því að kveðja, höfum við lengi átt og eiga að stuðla að því að hjálpa til við það sorgarferli, sem fer í gang þegar ástvinur fellur frá. Að kveðja fallega, í þakklæti og af virðingu er mikil hjálp í sorgarferlinu. Að standa við kistu ástvinar, signa yfir, kyssa, strjúka vanga, segja takk fyrir allt og allt, fella tár og fallast í faðma, er þungbært, en í þeirri stund eru ljós huggunar og vonar. Að heyra huggunarrík og falleg orð, að rifja upp æviferil og minningar, að hlusta á tónlist og sálma sem veita huggun eða kveikja á minningum er styrkur á vegi sorgarinnar. Að hittast yfir kaffibolla eftir kveðjustund, fá faðmlag, fá hlýtt og traust handartak með fallegum orðum, er stuðningur og styrkur við það ferli sem framundan er. Ferlið felst í að byggja upp nýtt og annars konar líf í ljósi þess að hafa misst. Allt þetta eru leiðarsteinar í átt til vonarinnar um endurfundi, eilíft líf í faðmi Guðs og í átt til þess að geta aftur brosað, fundið gleði og tilgang.
Á þeim tímum sem við erum að ganga í gegnum núna verðum við að kveðja á annan og öðruvísi hátt en við erum vön. Hvort sem andlát ástvinar okkar hefur borið að vegna veirunnar eða á annan hátt, getum við næstu vikur ekki kvatt eins og við erum vön. Ekki kvatt með þeim aðferðum sem við kunnum og vitum að hafa reynst okkur og kynslóðunum á undan hjálplegar í sorgarferlinu. Inn í kveðjustundina blandast það að við höfum kannski ekki getað heimsótt eða átt innilegar samverustundir með ástvini okkar eins oft og við höfum getað fram að þessu. Við höfum jafnvel ekki getað verið til staðar í veikindum eins og við hefðum annars gert. Það er svo margt í kveðjustundinni sem við missum af og það er margt sem vantar. En aðstæðunum eins og þær eru um þessar mundir breytum við ekki, heldur þurfum að laga okkur að þeim.”
Prestur og starfsfólk kirkjunnar mun gera allt sem á þeirra valdi stendur til að gera fólki kleift að kveðja ástvini fallega og aðstoða þá til að stundin verði sem innihaldríkust og uppbyggileg. En um leið ber okkur öllum skylda til að fara í öllu að fyrirmælum almannavarna. Nú er brýnt að við förum varlega, sýnum hvert öðru umhyggju, tillitssemi og styðjum hvert annað með góðum orðum og nærveru. Snerting, hlý faðmlög og þétt handtak verði að bíða enn um sinn. Það má síðan kannski vel hugsa sér, að þegar hættan verður gengin yfir og samkomubanni aflétt, sólin farin að skína og grasið að grænka, þá komi fjölskyldur saman, eigi góða dagstund þar sem rifja má upp minningar, segja sögur, gleðjast og umvefja hvert annað í þakklæti og von.
Sigríður Gunnarsdóttir sóknarprestur