Nú á aðventunni hefur Sauðárkrókskirkja fengið góðar gjafir frá ýmsum velunnurunum. Fyrst er að telja Lionsklúbbur Sauðárkróks færði kirkjunni upptökubúnað og myndavél í kirkjuna svo hægt sé að senda út athafnir og fylgjast með á skjá í safnaðarheimili og tjaldi í Bifröst. Sá búnaður sem kirkjan átti var kominn mjög til ára sinna, til að mynda sýndist presturinn nánast breiðari en hann er hár á tjaldinu í Bifröst. Lionsmenn buðu sóknarpresti og formanni sóknarnefndar á jólafund sinn sem haldinn var á Hótel Mælifelli þann 9. desember sl, þar sem búnaðurinn var formlega afhentur. Klúbbnum voru færðar heilar þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf og þess má geta að það þetta er ekki í fyrsta sinn sem Lionsmenn styrkja kirkjuna sína.

Heiðurshjónin Brynhildur Sigtryggsdóttir og Ómar Kjartansson komu á dögunum færandi hendi með fjóra blómavasa. Gjöfin er í minningu foreldra þeirra, Maríu Hermannsdóttur og Kjartans Haraldssonar, Sigurlaugar Guðrúnar Gunnarsdóttur og Sigtryggs Bergþórs Pálssonar. Vasarnir koma að góðum notum og færum við þeim Binný og Ómari hjartans þakkir fyrir.

Þá nýfæddur Jesú í jötunni lá syngjum við á jólum. Börn úr barnastarfi kirkjunnar settu upp helgileik á aðventuhátíðinni, á fyrsta sunnudegi í aðventu. Sigurður Jónsson smíðakennari krakkanna tók því erindi sóknarprests ljúflega að smíða jötu handa Jesúbarninu fyrir helgileikinni. Nú á kirkjan fallega jötu og þökkum við Sigga fyrir að bregðast svo vel við.

Einnig er vert að þakka þeim fjölmörgu félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum sem gefið hafa til jólaaðstoðar nú á aðventunni.  Á hverju ári styður kirkjan og Hjálparstarf kirkjunnar við nokkrun hóp af efnalitum fjölskyldum. Guði launi það allt.